KIA Gullhringurinn – Reglur

Keppnisreglur

Þó svo að KIA Gullhringurinn sé ekki haldinn innan vébanda Hjólreiðasambands Íslands (HRÍ) þá gilda reglur HRÍ í mótinu, eins og við á. Að auki gilda eftirfarandi reglur til viðbótar eða víkja til hliðar reglum HRÍ:

A. Keppnishaldari skilgreinir hægri akrein sem keppnisbraut.

B. Allir keppendur verða að hafa stöðugt rautt ljós að aftan.

C. Rafmagnshjól:

 1. Sumar tegundir rafmagnshjóla eru leyfðar í Fjölskylduflokkunum: Votmúlahringnum (12 km) og Flóaáveitunni (43 km).
 2. Bannað er að nýta sér skjól af rafmagnshjólum.

D. Fylgdarbílar eru bannaðir.

E. Keppnisradíó eru bönnuð.

Að auki eru almennar reglur Alþjóðahjólreiðasambandsins (UCI) um götuhjólreiðar (RR) hafðar til viðmiðunar við dómgæslu.

Dómarar með UCI-réttindi munu dæma keppnina. Þátttakendur sem ekki fara eftir þessum reglum eiga á hættu að verða skráðir úr mótinu eða vísað úr keppni.

Keppanda ber að kynna sér keppnisleið og keppnisbraut í keppnishandbók, og kynna sér keppnisreglur og reglur keppnishaldara þar að lútandi.

Helstu atriði sem keppendur ættu sérstaklega að kynna sér úr reglum HRÍ:

 1. Þátttaka er á ábyrgð keppenda.
 2. Keppendur skulu fylgja almennum umferðarlögum í hvívetna, t.d. þegar bílum er mætt eða þegar hjólað er út á akbraut.
 3. Bannað er að stytta sér leið. Yfirgefi keppandi keppnisleiðina verður hann að koma inn á hana á sama stað og hún var yfirgefin.
 4. Keppandi sem veldur truflun í keppni með því að hindra eða stofna öðrum keppanda í hættu (t.d. í endaspretti) dæmist úr leik. Ber þar helst að nefna skyndilegar hraða- og stefnubreytingar í hóp hjólara.
 5. Í endaspretti skal keppandi undantekningalaust halda beinni línu og hafa a.m.k. aðra hendi á stýrinu. Dómari getur áminnt keppanda, dæmt keppenda aftast í hóp eða dæmt keppenda úr keppni, eftir alvarleika brotsins.
 6. Keppandi sem fer yfir marklínu má ekki bremsa niður fyrr en 50 metrum eftir hana og þá skal hann fara út í vegkant eða út af veginum áður en hann stöðvast alveg. Ekki má vera stopp á miðjum veginum eftir marklínu. Alls ekki má hjóla til baka að marki nema í vegkanti, og þá einungis mjög hægt. Ekki má fara aftur yfir tímatökubúnað.
 7. Bannað er að nýta sér skjól af farartækjum.
 8. Keppandi má einungis nýta sér skjól af keppendum í sama ráshóp (drafta, vera í kjölsogi).

Búnaður: Allir keppendur skulu hjóla með reiðhjólahjálm meðan á keppni stendur.

Í öllum vegalengdum skal gæta þess að búnaður á reiðhjólinu, svo sem ljós, standari, bögglaberi, bretti eða annað slíkt ef við á, sé vel festur, og af búnaðinum stafi ekki hætta fyrir aðra keppendur.

Liggistýri, letingjar, TT-bars eða annar sambærilegur búnaður er bannaður í öllum vegalengdum. Venjulegir stuttir stýrisendar (festir á enda fjallahjólastýris) eru leyfðir.

Rafmagnshjól: Einungis svokölluð „pedal-assist“ rafmagnshjól eru leyfð, sem einungis veita aukaafl ef hjólreiðamaðurinn er þegar að stíga hjólið. Þau eru skilgreind í umferðarlögum (2019 nr. 77 25. júní) í 3. gr., tölul. 30b:

Hjól með stig- eða sveifarbúnaði, búið rafknúinni hjálparvél þar sem samfellt hámarksafl er allt að 0,25 kW og afköstin minnka smám saman og stöðvast alveg þegar hjólið hefur náð hraðanum 25 km á klst. eða fyrr ef hjólreiðamaðurinn hættir að stíga hjólið.

Önnur rafmagnshjól eru ekki leyfð; einkum og sér í lagi eru hjól skilgreind í töluliðum 28 og 30c ekki leyfð.

Brot á reglum:

 • Þáttakandi sem fer ekki eftir ofangreindum reglum verður dæmdur úr keppni ef annað er ekki tekið fram í tiltekinni reglu.
 • Mótsstjórn áskilur sér rétt til að stöðva í ræsingu hvern þann sem ekki fylgir þessum reglum.

Aðrar reglur

Treyst er á heiðarleika, samvisku og besta framferði keppenda, sérstaklega þegar kemur að almennu öryggi keppenda, starfsmanna og áhorfenda.

Keppendur sýni ávallt ýtrustu varúð í samræmi við aðstæður. Keppendum ber að virða keppnisreglur og þær reglur sem keppnishaldari hefur gefið út. Keppendur skulu sýna af sér íþróttamannslega hegðun sem er hjólreiðum til framdráttar. Keppendur skulu ávallt koma heiðarlega fram við aðra þátttakendur jafnt í keppni og utan keppni. Hótanir og niðrandi ummæli um aðra þátttakendur eru hvorki leyfð í keppni né utan keppni.

Almennar umferðarreglur gilda. Bent er sérstaklega á eftirfarandi:

 • Ekki taka fram úr öðrum keppendum nema öllu sé óhætt.
 • Keppendum sem nema staðar ber að færa sig strax út í vegkant.
 • Keppendum sem hætta keppni er bent á að færa hjólið út fyrir vegkant en þó helst þannig að það sé sýnilegt fyrir þjónustubíla.

Keppendum ber að kynna sér brautarlýsingu ýtarlega fyrir keppni.

Keppendur án flögu eða með flögu rangt festa fá ekki tíma.

Þegar keppandi hefur lokið keppni er hvorki leyfilegt að hjóla aftur út á brautina né að hjóla í gegnum markið (og yfir tímatökubúnaðinn) nema einu sinni í byrjun og einu sinni í lokin.

Göngum vel um og hendum ekki rusli á leiðinni.

Keppnishaldari getur vikið keppanda úr keppni brjóti hann einhverja af framangreindum skilmálum.

Að auki við skilmála og keppnisreglur KIA Gullhringsins skulu allir keppendur skuldbinda sig til að:

 1. Hafa stundað viðeigandi þjálfun til að ljúka keppni innan tímamarka.
 2. Stunda heiðarlega keppni og fylgja settri leið skipuleggjenda.
 3. Bera virðingu fyrir náttúrunni og henda ENGU rusli á leiðinni nema við drykkjarstöðvar í ruslatunnur.
 4. Klæða sig eftir veðri og veðurspá.
 5. Hafa með sér næga næringu og vökva til að klára keppnina.
 6. Sýna öðrum keppendum og vegfarendum í brautinni virðingu og tillitssemi á leiðinni.
 7. Hafa keppnisnúmer ávallt sýnileg allan tímann.
 8. Keppendum ber að aðstoða aðra keppendur í neyð og þar til önnur viðeigandi hjálp hefur borist.
 9. Keppnisstjóri og framkvæmdastjórn keppninnar ber ekki ábyrgð á keppendum vegna utanaðkomandi þátta eins og veðri eða náttúruhamfara (Force Majeure).
 10. Keppendur eru á eigin ábyrgð í keppninni en eru hvattir til að leita viðeigandi aðstoðar ef um slys eða veikindi koma upp.
 11. Keppnisstjóri getur vísað öllum frá keppni sem fylgja ekki settum reglum.
 12. Keppnisstjóra er heimilt að aflýsa eða stöðva keppnina vegna ófyrirsjáanlegra utanaðkomandi aðstæðna.

Deildu þessari grein:

Nýjustu fréttirnar

01.12.2023

Skráning í Hengil Ultra hefst í dag

23.09.2023

Dagskrá NOW Eldslóðin 2023

30.08.2023

Landsnet MTB viðburður færður vegna veðurs

30.08.2023

NOW Eldslóðin færð vegna veðurs

Hafðu samband

© Víkingamótin 2020 - 2024
Website by: Gasfabrik