Skráning hafin í Landsnet MTB

Skráning er hafin í Landsnet MTB sem fer fram í Hveradölum og þúsundvatna leiðinni á Hellisheiði laugardaginn 11. september. Þar til 25. ágúst er hægt að skrá sig til leiks fyrir aðeins 4.900 krónur en fullt verð í keppnina er 11.900 krónur. Þetta er opnunartilboð sem engin ætti að láta fram hjá sér fara. Skráðu þig og þína núna https://netskraning.is/landsnet/

Skíðaskálanum Hveradölum Laugardaginn 11. september 2021
Frá klukkan 13:00 til 17:00

Hring-keppnisbraut um stórbrotið landslag Hellisheiðar. Hjólað er um slóða, stíga, árfarveg og línuvegi Landsnets. Þrír rásflokkar: Keppnis-, rafhjóla- og skemmtiflokkur. Ræsingar keppninnar og flokkar eru háðir gildandi sóttvarnarreglum.

Heildarvegalengd: 26 kilómetrar
Byrjunarhæð: 366 metrar
Hæsti punktur: 473 metrar
Samtals hækkun: 262 metrar
Samtals lækkun: 262 metrar

13:00 Mótsetning
13:30 Ræsing rafhjólaflokks
13.45 Ræsing keppnisflokks
13:55 Ræsing skemmtiflokks
15:30 Verðlaunaafhendingar og veisla
17:00 Mótslok

Skíðaskálinn er opinn fyrir keppendur, fjölskyldur og áhorfendur á meðan á keppninni stendur. Innifalið í skráningu eru veitingar fyrir alla keppendur á eftir keppni. Verðlaunaafhending verður úti ef veður leyfir en annars verður hún haldin í veislusal Skíðaskálans.

Landsnet MTB er ræst í þremur rásflokkum frá Skíðaskálanum í Hveradölum. Hjólað er upp á Hellisheiði sunnan við skálann en norðan við Þjóðveg nr. 1. Hjólað er um malarveg utan um Hveradalafjöllin og þaðan að Hengilsrótunum í norð- norðaustur. Þaðan er skutlast á malbik um nokkra tugi metra og hjólað inn á malar- og moldarslóða sem liggur að Skarðsmýri. Á því svæði rís slóðin einna hæst í brautinni án þess að hægt sé að tala um mikinn bratta eða erfiðleika þar. Þá er komið niður Hengladalsá og að Fremstadal en þaðan er frjáls aðferð um árfarveginn um cirka 1000 metra. Þar er komið upp úr árdalnum um mjög fjölbreytan, torfæran og um leið ævintýralegan stíg sem fer um svæði sem nefnist Svínahlíð. Um þann slóða liggur leiðin upp að línuvegi Landsnets á móts við Ölkelduháls. Þessi hluti er samtals um 2 km og er seinfarinn.

Þegar komið er inn á línuveg Landsnets er tekið beint strik í suð-suðvestur í átt að Hellisheiðarveginum, yfir Bitru hraunið um 2 km niður í Smjörþýfisdalinn og yfir Hengladalsá þar. Þá er haldið áfram yfir brú upp í hraunið og að beitargirðingunni sem birtist eftir 1 km frá brúnni. Hjólað verður fram fyrir girðinguna og síðan fer brautin um töluvert gamlan slóða niður í hraunið aftur og þaðan um kindastíga að undirgöngunum undir Hellisheiðarveg/Þjóðveg númer eitt. Haldið er áfram í suð-suðaustur að gamla þjóðveginum og þar er farið inn á gamla þjóðveginn og straujað þaðan beint strik í vestur eftir Hellisheiðinni en samtals er sá kafli um 4.5 km og nokkuð greiðfær malarvegur.

Þaðan er farið um undirgöng aftur en þá eru um 4 km eftir af brautinni og farið er inn á malbik í um 2 km slóða sem síðan tengist aftur við fyrstu 2 kílómetra brautarinnar og koma keppendur niður að markinu í Skíðaskálanum um sömu 2 km sem leiðin byrjaði á.

Þessi braut eru í þróun. Næstu vikur munum við skoða hana og brautar mæla, við munum hreinsa hana af stórgrýti og vinna aðeins við tengingar á milli vega yfir á slóða og frá slóðum á kindarstíga. En þetta er erfið braut og tæknileg þó hún sé ekki löng og telji ekki mikla heildar hækkun. Hún er aftur á móti stór skemmtileg og útsýnið frá hæstu punktum hennar er algjörlega einstakt þar sem sést nánast í 360 gráður um allt suðvestur land og meira til.

Fyrirvarar:
*Mótstjórn áskilur sér rétt á því að breyta brautinni fram að keppni. Við erum ennþá að reyna að finna leiðir sem stytta þessa 2 km af malbiki og fleira.
*Mótstjórn áskilur sér einnig rétt til að stytta brautina ef veður aðstæður á keppnisdegi kalla á styttri keppni. *Ákvarðanir um breytingar eru teknar með öryggi og upplifun þátttakenda að leiðarljósi.

Deildu þessari grein:

Nýjustu fréttirnar

07.06.2024

Dagskrá 2024

28.05.2024

Upplýsingafundur um 10K og 5K í dag

28.05.2024

Snjór í efstu hlaupaleiðum

19.05.2024

Uppselt í 26km

Hafðu samband

© Víkingamótin 2020 - 2024
Website by: Gasfabrik